Í ár voru sýnd 15 hross frá Feti, bæði hérlendis og erlendis. 11 hross sem við sýndum og svo 4 hross sem við höfum selt erlendis.
Meðaleinkunn aðaleinkunar er 8,09. Fyrir byggingu er meðaltalið 8,23 – öll fengu þau fyrstu verðlaun í byggingu nema eitt hross sem fékk 7,99. Til gamans má geta að 6 hryssur hlutu 9 fyrir háls, herðar og bóga.
Meðaleinkunn hæfileika er 7,99 – 6 hross hlutu 9 fyrir tölt, 4 hlutu 9 fyrir vilja og geðslag og 2 hryssur hlutu 9 fyrir fegurð í reið.
Meðalaldur er 5,6 ár
Hæst var eins og í fyrra, Hildur frá Feti. Hún hlaut 8,54 í aðeinkunn, 8,62 fyrir hæfileika og 8,42 fyrir byggingu. Hildur er undan Storm frá Leirulæk og Fontsdótturinni Fingurbjörg frá Feti. Hildur er einstaklega ljúf hryssa en á sama tíma mikið afkastahross. Hún er í miklu uppáhaldi hér á bæ og bætist hún í ræktunarhryssurnar í ár. Hún er fylfull við Stekk frá Skák (8,66)
Hrísla frá Feti, 5 vetra, var einnig sýnd í ár. Hún hlaut 7,92 í aðaleinkunn, 9 fyrir tölt, 8.5 fyrir vilja og fegurð í reið. Hrísla er rúm og skemmtileg klárhryssa sem lét lítið fyrir sér fara framan af vetri en sprakk svo út um vorið. Hún er undan Kvist frá Skagaströnd (8,58) og Álsey frá Feti (8,04) sem er ein af elstu ræktunarhryssum hér á Feti og er enn í fullu fjöri 23 vetra gömul og fylfull.
Fífa frá Feti er 6 vetra undan Héðni frá Feti (8,62) og Arndísi frá Feti (8,21). Hún hlaut 7,98 í aðaleinkunn, 8,5 fyrir stökk og fegurð í reið. Fífa hefur marga skemmtilega eiginleika sem við viljum og hefur hún verið sett í ræktun. Hún fór undir Ský frá Skálakoti (8,70) í sumar.
Irpa frá Fet, 6 vetra, hlaut 8.08 í aðaleinkunn, 9 fyrir háls og 8,5 fyrir tölt. Hún er undan Óm frá Kvistum (8.61) og Orradótturinni Eddu frá Feti (8.34). Irpa er stór og mikil alhliðahryssa sem mælist 149 cm.
Brana frá Feti, 5 vetra, hlaut 7,97 í aðaleinkunn, 9 fyrir samræmi og bak og lend, 8,5 fyrir tölt. Hún er undan Héðni frá Feti (8.62) og Fingurbjörg frá Feti, sem gerir hana sammæðra Hildi. Brana er ljúf og meðfærileg hryssa sem hver sem er getur riðið.
Eldri fréttir eru til af hinum hryssunum, Sigyn 4 vetra 8,30, Mekkín 4 vetra 8,04, Kilja 5 vetra 8,09, Embla 5 vetra 8,03, Ásdís 6 vetra 8,13 og Nína 7 vetra 8,20.