Í vor sýndum við 12 hross frá Feti, 10 hryssur og 2 graðhesta. 8 hryssur fóru í fyrstu verðlaun. Hæst var Sigyn frá Feti, 5 vetra með 8.39 í aðaleinkunn. Hún hlaut 8.48 fyrir byggingu og 8.34 fyrir hæfileika m.a. 9 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og samræmi.
Sigyn frá Feti
Svo koma alsysturnar Kilja og Mekkín frá Feti með sömu aðaleinkunn upp á 8.33. Kilja er 6 vetra klárhryssa með 8.33 fyrir byggingu og hæfileika, m.a. með 9 fyrir háls herðar og bóga, brokk, stökk, vilja og fegurð í reið, ásamt 9.5 fyrir tölt. Mekkín er 5 vetra alhliðahryssa með 8.46 fyrir byggingu og 8.24 fyrir hæfileika m.a. 9 fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend og réttleika.
Þessar hryssur unnu sér inn þátttökurétt á Landsmóti sem byrjar í næstu viku og gaman verður að sjá þær máta brautina í Reykjavík.
Kilja frá Feti
Mekkín frá Feti
Einnig var sýndur inn 4 vetra gamli Andri frá Feti sem fékk 7.97 í aðaeinkunn. Hann fékk 8.14 fyrir byggingu og 7.85 fyrir hæfileika, m.a. 9 fyrir bak og lend og 8,5 fyrir háls, herðar og bóga, samræmi, hófa og tölt. Þetta er stór og skrefamikill foli sem gaman verður að halda áfram með næsta vetur. Andri er undan Jónínu frá Feti og Stála frá Kjarri.
Andri frá Feti
Dáð og Dröfn frá Feti eru tvær 4 vetra hryssur sem einnig fóru í fínan dóm. Dáð fór í 7.86 sem klárhryssa og Dröfn í 7.97, þar af fékk hún 9.5 fyrir höfuð. Einstaklega fríð og léttbyggð hryssa en hún er litla systir Kilju og Mekkín sem eru undan Kreppu frá Feti. Dröfn er undan Óm frá Kvistum og Dáð er undan Eddu frá Feti og Jarli frá Árbæjarhjáleigu. Báðar þessar hryssur munu fylgja feðrum sínum í afkvæmasýningum á Landsmótinu í næstu viku.
Dáð frá Feti
Einnig voru sýndar þrjár 5 vetra hryssur sem allar hlutu 1.verðlaun. Malín frá Feti er undan Kiljan frá Steinnesi og heiðursverðlaunahryssunni Ösp frá Háholti. Malín hlaut fyrir byggingu 7.92 og 8.28 fyrir hæfileika, 8.14 í aðaleinkunn.
Malín frá Feti
Gefn frá Feti er undan Adam frá Ásmundasstöðum og Gjöf frá Feti. Hún hlaut 8.27 fyrir byggingu og 8.06 fyrir hæfileika, þar með 8.14 í aðaleinkun. Gefn er mjög stór en hún mældist 150 cm á herðar.
Gefn frá Feti
María Hlín frá Feti er undan Kiljan frá Steinnesi og Eddu frá Feti. Hún hlaut 8.31 fyrir byggingu, 7.87 fyrir hæfileika og 8.06 í aðaleinkun. María Hlín mældist 149 cm á herðar.
María Hlín frá Feti
Aldursforsetinn í hópnum er klárhryssan Gerpla frá Feti, hún er 7 vetra undan Dug frá Þúfu og Svörtufjöður frá Feti. Gerpla hlaut 8.36 fyrir byggingu og 8.27 fyrir hæfileika. Hún fékk sjö sinnum 9 í einkunn, fyrir háls, herðar og bóga, hófa, tölt, brokk, stökk, vilja og fegurð í reið.
Gerpla frá Feti