Þrjár dætur Jónínu frá Feti voru sýndar í sumar. Það voru Nína, Ásdís og Embla frá Feti, þær eru fyrstu 3 afkvæmi Jónínu og gaman að segja frá því að þær voru allar sýndar sama dag, í sama holli. Við höldum að það hafi nú ekki gerst oft á kynbótasýningu að 3 systur undan sömu meri séu sýndar á sama tíma. Þessar systur hlutu allar fyrstu verðlaun, en þær eru allar ólíkar, Nína er ofurtöltari, Ásdís er fjórgangsmeri með allar gangtegundir góðar og Embla er alhliðahryssa. En þær hafa allar það sameiginlegt að vera myndalegar, stórar og framfallegar.
Jónína var sýnd fyrst 4 vetra og hlaut þá 8.17 í aðaleinkun. Hæsta dóminn hlaut hún 7 vetra, 8.59 í aðaleinkun – 9.5 fyrir tölt. vilja og fegurð í reið. Jónína er fjórða hæst dæmda klárhross í heiminum í dag.
Nína frá Feti er elst, fædd 2010. Hún er undan Óm frá Kvistum. Nína var sýnd fyrst 4 vetra og hlaut þá strax góðan klárhryssudóm, 8,03. Hæst hefur Nína hlotið 8.20 í aðaleinkun, 8,35 fyrir byggingu og 8.10 fyrir hæfileika – 9 fyrir tölt, vilja og fegurð í reið, 9,5 fyrir stökk. Einnig hefur verið aðeins keppt á Nínu í töltkeppnum og gengið ágætlega. En í sumar var ákveðið að halda henni og fyrir valinu var Straumur frá Feti og hún rétt náði að fyljast áður en Straumur hélt á vit nýrra heimkynna í Danmörku. Vonandi kemur einhver súpertöltari með þessari blöndu.
Næst í röðinni er Ásdís, fædd 2011. Hún er undan höfðingjanum Orra frá Þúfu. Ásdís er því aðeins skyldleikaræktuð, þar sem Orri er afi Jónínu en Orri hef reynst vel í ræktun hér á Feti og oft ekki komið að sök að skyldleikarækta útaf honum. Ásdís var sýnd 4 vetra gömul og hlaut ágætan klárhryssudóm, 7,77 í aðeinkun – 8 fyrir allar gangtegundir, nema 8,5 fyrir stökk og 5 fyrir skeið. Ásdís var strax stór og skrefmikil og minnir stundum á mömmu sína. Hæsta dóminn sinn hlaut hún í sumar, 8.13 í aðaleinkun, 8,35 fyrir byggingu og 7,98 fyrir hæfileika – 9 fyrir tölt og 8.5 fyrir stökk, vilja, fegurð í reið og fet. Ákváðum við að halda Ásdísi í sumar og fór hún undir hinn unga og efnilega Boða frá Breiðholti ( 8,24)
Embla frá Feti er þriðja hryssan undan Jónínu. Faðir hennar er Kiljan frá Steinnesi. Embla er aðeins ólík eldri systrum sínum þar sem hún er alhliðahryssa. Hún var sýnd 4 vetra og hlaut þá 7.83. Í sumar fékk hún í aðaleinkun 8.03 – 8.22 fyrir byggingu og 7,91 fyrir hæfileika. Embla fór undir Óm frá Kvistum í sumar.